KJARTAN MÁR KJARTANSSON

Frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar árið 2014 hefur mikið reynt á stjórnendur sveitarfélagsins sem og alla aðra starfsmenn og íbúa. Árið 2019 samþykkti bæjarstjórn samhljóða nýja framtíðarsýn, megináherslur, gildi og aðgerðir undir vinnuheitinu; „Í krafti fjölbreytileikans“ sem ætlað er að verða leiðarljós fyrir stjórnendur og starfsmenn sveitarfélagsins til ársins 2030. Til að stilla saman strengi fengum við Guðrúnu Högnadóttur stjórnendaráðgjafa frá Franklin Covey á Íslandi til að vinna með okkur með það að markmið að skerpa á framtíðarsýninni og styrkja stjórnendateymið enn frekar. Er skemmst frá því að segja að sú vinna tókst frábærlega og stendur enn. Guðrún færði okkur mörg verkfæri í hendur sem nú er unnið að því að innleiða og mun sú vinna standa yfir næstu misserin.