Mér gefst ekki tími til að læra nýja færni


Á flestum vinnustöðum er tíminn af skornum skammti og þú ert alltaf undir álagi. Þrátt fyrir það skuldarðu sjálfum þér að sigrast á þessum hindrunum og byggja upp færni þína.


Hvað gæti verið á seyði?

  • Mikilvægi daglegra athafna hefur skyggt á mikilvægi vaxtar og lærdóms í starfi þínu. Þú býst við því að yfirmaður þinn eða vinnustaður stýri lærdómi þínum, frekar en að treysta á sjálfa(n) þig.
  • Kunnáttan sem þú vilt læra er svo viðamikil og ógnvekjandi að þú ert ekki viss hvernig á að byrja.
  • Kunnáttan sem þú vilt læra er utan gildissviðs núverandi starfs þíns.
  • Þér finnst þú ekki hafa stuðning frá yfirmanni þínum eða öðrum á vinnustaðnum til að prófa nýja hluti.

Leiðir til að takast á við það:

  1. Settu nám í forgang.

Þegar þú skuldbindur þig loks að læra nýja færni, frekar en að fresta því stöðugt, byrjar þú að fullnýta getu þína. Taktu þér orð Peter Drucker til fyrirmyndar:

“Þekkingarstarfsmaður (e. knowledge worker) þarf aðeins eitt: að læra hvernig á að læra.”

Peter Drucker
  1. Einbeittu þér að færni sem skiptir þig máli.

Það tekur tíma og æfingu að verða góður í einhverju. Þess vegna er svo mikilvægt að einblína á einhverja færni sem færir þér gríðarlega mikla gleði í hvert sinn sem þú sérð fyrir þér að þér takist markmiðið. Ef þú ert enn ekki viss hvaða færni þú ættir að einbeita þér að skaltu fylgjast vel með fólkinu í kringum þig. Hvað gerir þetta fólk vel? Geturðu séð sjálfa(n) þig fyrir þér í sömu sporum?

  1. Talaðu við yfirmann þinn um markmið þín.

Ef þér hefur fundist þú of upptekin(n) til að hugsa um þróun þína í starfi skaltu prófa að eiga heiðarlegt samtal við yfirmann þinn. Hann eða hún gæti komið með nokkrar frábærar hugmyndir og jafnvel bent þér á nýtt fólk til að tengjast sem gæti komið þér nær markmiði þínu. Yfirmaður þinn gæti einnig hjálpað þér að finna viðeigandi verkefni sem þú gætir unnið að sem gæti gert þér kleift að nýta hina nýju færni þína. Byrjið á því að skiptast á hugmyndum og nýttu 1&1 fundi til þess að segja frá námsárangri þínum. Þannig verður auðveldara fyrir þig að halda í áhugann. Auk þess mun yfirmaður þinn líklega kunna að meta frumkvæði þitt og löngun þína til að bæta þig; Flestir stjórnendur kunna svo sannarlega að meta þessa eiginleika.

“Arnaldur, ég hef haft svo mikið á minni könnu að ég hef ekki haft tíma til að læra nýja færni í langan tíma. Mér þætti til dæmis ótrúlega áhugavert að vita hvernig á að búa til öflugar kannanir fyrir viðskiptavini. Ég held að sú þekking myndi hjálpa mér að vinna verkefni mín betur og ýta undir faglegan vöxt minn. Gætum við skipst á hugmyndum við tækifæri um hvernig ég get eflt þessa færni og unnið í henni samhliða hinum verkefnum mínum?”

  1. Skiptu niður færninni sem þú vilt læra.

Segjum að þú viljir verða betri í samskiptum. Það hljómar vel en svo stórt markmið virðist oft yfirþyrmandi í fyrstu. Það ýtir undir líkurnar á því að þú byrjir aldrei að efla færnina. Með því að skipuleggja lærdóm þinn og skipta niður færninni í minni hluta eykurðu líkur þínar á árangri.

Byrjaðu á því að hugsa um allt sem þyrfti að gerast til þess að efla þá færni sem þú valdir. Kannski þarftu að bæta ritfærni þína, nota rétta málfræði eða bæta kynningarfærni. Veldu eitthvað eitt sem þú getur bætt strax í dag, helst eitthvað sem auðvelt er að koma fyrir í dagskránni þinni. Segjum að sú málfræðivilla sem oft má sjá í texta frá þér sé “hvort sem er” í staðinn fyrir “hvort eð er”. Á hverjum degi gætir þú æft þig með því að skrifa eina setningu með því að nota orðasambandið rétt.

Fylgdu þessu eftir og óskaðu sjálfum/sjálfri þér til hamingju! Þú hefur tekið fyrsta skrefið í átt að betri samskiptafærni. Gefðu þér tíma í markmiðið og þegar þú byrjar að sjá framfarir skaltu tækla það sem næst er á listanum þínum.

  1. Skipuleggðu tíma til að byggja upp færni, jafnvel þótt þú takir þér einungis nokkrar mínútur á viku.

Skipuleggðu tíma til að læra, helst á sama stað og á sama tíma, sem mun hjálpa þér að skapa rútínu. Jafnvel þó að þú gefir þér aðeins 15 mínútur á föstudögum til þess að vinna að markmiði þínu muntu smám saman sjá framfarir.

  1. Finndu eða búðu til hóp með öðru fólki sem vill efla sömu færni.

Stuðningur annars fólks, sem leitast við að efla sömu færni og þú, getur verið ótrúlega hvetjandi. Reyndu að finna einhvern sem hefur áhuga á að rækta þá færni sem þú valdir. Ef þú manst ekki eftir neinum skaltu búa til hóp af fólki sjálf(ur), annað hvort með samstarfsfólki eða fólki utan vinnu. Þar getið þið skipst á sögum og tækni, hvatt hvert annað áfram þegar á móti blæs, prófað ykkur áfram í öruggu umhverfi, sameinað úrræði og fagnað litlu og stóru sigrunum.

  1. Leitaðu að námstækifærum á öllum sviðum lífs þíns, ekki bara í vinnunni.

Flesta færni má nýta á mörgum sviðum lífsins. Vertu skapandi. Til dæmis gætirðu lært að biðja um viðbrögð frá fjölskyldu og vinum, eflt tengslamyndun með því að hefja samtöl á kaffihúsum eða eflt leiðtogafærni þína með því að stofna hópa eða bjóða fram aðstoð þína.


Hafðirðu áhuga á efninu í örgreininni hér að ofan? Ef svo er þá bendum við þér á tvær nýjar lausnir okkar, Kynningarfærni og Ritfærni sem miða að því að hjálpa þér að efla lykilfærni til þess að ná árangri í lífi og starfi.

Þú getur lært meira með því að smella á myndirnar hér að neðan.