Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri ræddi við Fréttablaðið um FranklinCovey
Vöxtur og velferð starfsfólks
Persónuleg forysta og frumkvæði í daglegum verkum byggir á meðvitaðri ákvörðun – en ekki stöðu, tilviljun eða aðstæðum. Leiðtogahæfileika má læra og þarf stöðugt að rækta.
FranklinCovey er alþjóðlegt fyrirtæki sem er leiðandi á sviði þjálfunar, ráðgjafar og rannsókna á árangri einstaklinga, liðsheilda og vinnustaða. Námskeið, vinnustofur og matstæki FranklinCovey hafa hentað firna vel við að bæta frammistöðu vinnustaða á Íslandi sem og meðal fyrirtækja, opinberra stofnana og skóla í fleiri en 150 löndum.
„FranklinCovey hefur þjónað árangri íslenskra vinnustaða í meira en sjö ár,“ segir Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi FranklinCovey á Íslandi. „Við erum helst þekkt fyrir lausnir okkar eins og 7 venjur til árangurs, innleiðingu stefnu með 4DX og vinnu okkar á sviði trausts og framleiðni – auk stjórnendaþjálfunar á öllum stigum reksturs. Fyrirtækið ver árlega stórum hluta af tekjum sínum í rannsóknir og þróun og í nýlegri rannsókn komu í ljós mjög breyttar þarfir hvað varðar vöxt og velferð vinnustaða um allan heim,“ segir Guðrún.
„Niðurstaðan er í fyrsta lagi að stjórnendur hafi ólíkar, fjölbreyttar þarfir eftir stöðu, starfsaldri og verkefnum og þeir læra með mismunandi hætti. Í öðru lagi kom í ljós að það er þörf fyrir mjög blandaða nálgun við þjálfun, sem speglar stefnu og sérstöðu hvers vinnustaðar og í þriðja lagi er vaxandi áhersla á árangur þjálfunar, en á sama tíma eru aðföng mjög takmörkuð, sérstaklega hvað varðar tíma og fjármagn. Þannig höfum við snúið vörn í sókn og bjóðum nú viðskiptavinum áskrift að öllu okkar efni í gegnum gátt sem heitir All Access Pass (AAP),“ segir Guðrún.
„Þar geta vinnustaðir sérsniðið alla þjálfun með blandaðri nálgun, meðal annars í örnámskeiðum á netinu og lengra námi – með sveigjanlegum, áhrifaríkum og hagkvæmum hætti. Við þjálfum líka innri þjálfara um AAP og bjóðum upp á svokallaðan ráðgjafa við fingurgómana, sem veitir stjórnendum hagnýt ráð í gegnum svokallaða Jhana-gátt, en „jhana“ þýðir viska á sanskrít.Allt þetta starf byggir á mjög einföldum en göfugum tilgangi FranklinCovey, sem er að virkja framúrskarandi frammistöðu fólks og vinnustaða um allan heim,“ segir Guðrún að lokum.